Fótbolti

Barcelona bað mig um að passa Neymar til 2014

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Neymar í leik með Santos.
Neymar í leik með Santos. Nordic Photos / Getty Images
Luis Alvaro Ribeiro, forseti brasilíska knattspyrnufélagsins Santos, segir að kollegi sinni hjá Barcelona hafi beðið sig að hafa góðar gætur á Neymar til ársins 2014.

Hinn nítján ára gamli Neymar skrifaði nýverið undir nýjan samning við Santos sem gildir til 2014. Barcelona, Real Madrid og önnur stórlið hafa haft augastað á kappanum en svo virðist sem að hann verði áfram í Brasilíu um sinn.

„Ég hef verið í góðu sambandi við bæði félög,“ sagði Ribeiro við fjölmiðla í heimalandinu. „Ég bað Rosell [forseta Barcelona] um að virða ákvörðun okkar um að halda Neymar og hann bað mig um að passa upp á leikmanninn til 2014.“

„Ég stakk svo upp á því við Florentino Perez [forseta Real Madrid] að félögin okkar myndu spila vináttuleik á aldarafmæli okkar og samþykkti hann það.“

Hann skilur vel að spænsku stórliðin hafi áhuga á Neymar sem hefur verið sagður einn allra efnilegasti knattspyrnumaður heims. „Ég skil það vel. Ef ég væri forseti Real Madrid eða Barcelona myndi ég gera það sama.“

Neymar hefur skorað tólf mörk í nítján leikjum með Santos á tímabilinu til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×