Fótbolti

Fyrsta tap Barcelona síðan í apríl

Valera fagnar sigurmarkinu fyrir framan svekktan Messi.
Valera fagnar sigurmarkinu fyrir framan svekktan Messi.
Barcelona tapaði sínum fyrsta leik síðan 30. apríl í kvöld. Þá sóttu Evrópumeistararnir lið Getafe heim og máttu sætta sig við 1-0 tap. Börsungar voru arfaslakir í leiknum og verða að sætta sig við að vera nú sex stigum á eftir Real Madrid.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill en á 67. mínútu fóru hlutirnir að gerast. Þá kom Valera liði Getafe yfir með laglegum skalla eftir hornspyrnu. Leikmenn Barcelona voru slegnir.

Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, var fljótur að bregðast við þessari erfiðu stöðu og setti tvo ferska menn inn um leið.

Börsungar hófu að sækja af miklum móð en þeir voru ekki sjálfum sér líkir í þessum leik. Þeim gekk ekkert að opna Getafe-vörnina og ekkert alvöru færi leit dagsins ljós.

Í uppbótartíma náði Lionel Messi að koma boltanum yfir línuna en Seydou Keita var dæmdur rangstæður. Dómurinn var rangur því það var leikmaður Getafe sem rak tána í boltann og gaf á Keita.

Ótrúleg dramatík var á lokasekúndum leiksins þegar Messi komst einn í gegn en skot hans fór í stöngina. Nokkrum andartökum síðar var leikurinn flautaður af og heimamenn fögnuðu hreint ógurlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×