Fótbolti

Robinho sýndi að Brassar geta líka skotið yfir á marklínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
AC Milan vann 2-0 útisigur á Genoa í ítölsku deildinni í gær og komst fyrir vikið á topp deildarinnar á ný. Eftirminnilegasta atvik leiksins var þó ekki mörkin hjá þeim Zlatan Ibrahimovic og Antonio Nocerino eða rauða spjaldið hans Kakha Kaladze.

Brasilíumaðurinn Robinho fékk nefnilega algjört dauðafæri á milli markanna þegar honum tókst á einhvern hátt að skjóta yfir markið á marklínunni. Menn spáðu því strax að þetta klúður hans myndi slá í gegn á Youtube.

Alberto Aquilani, sem er í láni frá Liverpool, gerði frábærlega í að halda boltanum inn á vellinum og leggja hann fyrir Robinho sem stóð fyrir framan opið markið en Brasilíumanninum tókst engu að síður að skjóta yfir.

Aquilani var allt annað en ánægður með liðsfélaga sinn og sýndi svekkelsi sitt með því að berja höndunum í grasið. Það má sjá þetta klúður Robinho með því að smella hér fyrir ofan.

Þetta er í annað skiptið á aðeins tíu dögum sem Robinho fer illa með algjört dauðafæri en hann skaut líka yfir af stuttu færi á móti Barcelona í Meistaradeildinni á dögunum. Það er hægt að sjá það klúður með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×