Fótbolti

Ronaldo með þrennu er Real fór aftur á toppinn

Ronaldo fagnar í kvöld.
Ronaldo fagnar í kvöld.
Real Madrid komst aftur á topp spænsku úrvalsdeildarinnar í kvöld er það vann stórsigur á Sevilla, 2-6. Real er með þriggja stiga forskot á Barcelona og bæði lið hafa leikið jafn marga leiki.

Real gerði út um leikinn í fyrri hálfleik með þremur mörkum. Cristiano Ronaldo skoraði tvö og Jose Maria Callejon eitt. Pepe fékk síðan rautt spjald undir lok hálfleiksins.

Þrátt fyrir að vera einum manni færri skoraði Real fyrsta mark síðari hálfleiks og var betri aðilinn. Það gerði Argentínumaðurinn Angel di Maria. Hann kláraði leikinn um leið.

Þá sýndi Sevilla smá stolt og Jesus Navas minnkaði muninn. Aðeins fimm mínútum síðar fékk Manu, leikmaður Sevilla, að líta rauða spjaldið fyrir ótrúlega litlar sakir. Algjörlega glórulaus dómur.

Fimm mínútum fyrir leikslok fékk Real síðan víti þegar brotið var á Karim Benzema. Ronaldo fór á punktinn og fullkomnaði þrennuna. Aðeins skárri frammistaða hjá honum en gegn Barcelona.

Veislunni var ekki lokið því Hamit Altintop skoraði sitt fyrsta mark fyrir Real Madrid tveim mínútum fyrir leikslok. Altintop var nýkominn af bekknum fyrir Benzema sem meiddist þegar brotið var á honum í vítinu.

Heimamenn fengu smá sárabót í uppbótartíma er Alvaro Negredo skoraði. Það breytti engu. Niðurlægingin var algjör.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×