Fótbolti

Mourinho: Klúðruðum of mörgum færum

Eiríkur Stefán Ásgeirssno skrifar
Pep Guardiola og Jose Mourinho í leiknum í gær.
Pep Guardiola og Jose Mourinho í leiknum í gær. Nordic Photos / Getty Images
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid, segir að það hafi komið honum á óvart að sjá hversu illa hans menn fóru með færin sín í leiknum gegn Barcelona í gær. Pep Guardiola og Xavi voru hins vegar hæstánægðir með sigur Barcelona.

Barcelona vann leikinn, 3-1, en Real komst yfir strax á fyrstu mínútu leiksins. Cristiano Ronaldo fékk svo tækifæri til að koma Real í 2-0 forystu stuttu síðar en fljótlega eftir það jafnaði Alexis Sanchez metin fyrir Barcelona.

„Við hefðum skorað aftur undir venjulegum kringumstæðum en Christiano setti boltann fram hjá," sagði Mourinho. „Við lentum í engum vandræðum á miðjunni en áttum erfitt uppdráttar á síðustu 10-15 mínútum leiksins."

„Barcelona stjórnaði leiknum, fengu bæði tíma og pláss til þess og gátu leyft boltanum að ganga á milli leikmanna."

Hann sagði að Lionel Messi hefði átt að fá rauða spjaldið í leiknum. „Það hefði átt að reka hann af velli en ég vil ekki segja neitt meira um málið þangað til að ég horfi aftur á leikinn."

Kollegi hans, Pep Guardiola, vildi ekki gera of mikið úr sigri sinna manna. „Ég er ánægður með frammistöðuna. Madrid mun ná sér á strik. Til þess að vinna hér verður maður að spila mjög vel og það tókst okkur að gera í dag."

Barcelona komst á topp spænsku úrvalsdeildarinnar með sigrinum en liðin eru jöfn að stigum. Real á þó leik til góða.

„En það er enn mikið eftir af tímabilinu og Madríd kemst aftur á toppinn ef þeir vinna Sevilla. Það verður enginn meistari í desember."

Miðjumaðurinn Xavi átti góðan leik í gær. „Við vorum miklu betri en Real Madrid," sagði hann eftir leikinn. „Við vildum vera hugrakkir. Við vissum að öðruvísi er ekki hægt að vinna svona leik. Við vorum góðir á öllum sviðum og mun betri en Real."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×