Fótbolti

Barcelona vill fá Romeu aftur næsta sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Spænska dagblaðið Marca segir líklegt að Barcelona ætli sér að kaupa miðjumanninn Oriel Romeu aftur frá Chelsea aðeins fimm mánðuðum eftir að hann var seldur til Englands.

Börsungar eiga von á því að Seydou Keita muni yfirgefa félagið í sumar og að félagið vilji þá endurheimta Romeu til að fylla í hans skarð.

Barcelona seldi kappann á fimm milljónir evra í sumar en samkvæmt spænskum fjölmiðlum var samkomulag gert á milli liðanna sem gerir Barcelona kleift að kaupa kappann aftur á tíu milljónir evra næsta sumar eða fimmtán milljónir sumarið 2013.

Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea, segir það rangt að slíkt samkomulag hafi verið gert en annað segir Marca.

Romeu náði aðeins einum leik með Barcelona en hefur náð sér ágætlega á strik með Chelsea. Keita mun hins vegar óánægður með hversu lítið hann hefur fengið að spila og er hann sagður á leið í ítölsku úrvalsdeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×