Erlent

Athugasemdir gerðar fyrir meira en áratug

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Alþjóðleg handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur Mas.
Alþjóðleg handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur Mas.

Meira en áratugur er síðan að gerðar voru athugasemdir við starfsemi franska fyrirtækisins PIP sem talið er hafa framleitt gallaða silikonpúða í brjóst. Fréttir af göllunum hafa valdið skelfingu á meðal kvenna um allan heim að undanförnu.



Eins og greint var frá um jólin hafa yfirvöld í Frakklandi heitið því að þau muni greiða aðgerðir fyrir allt að þrjátíu þúsund konur sem talið er að séu með sílikonpúða frá framleiðandanum. Óttast er að sílikonpúðarnir geti lekið og að þeir geti valdið krabbameini í konunum. Þessi galli í sílikonpúðunum uppgötvaðist fyrir um það bil tveimur vikum síðan, en samkvæmt frásögn Daily Telegraph var greint frá því í gær að bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið hefði gert athugasemdir við starfsemi PIP árið 2000.

Eftir að fulltrúi bandaríska matvæla og lyfjaeftirlitsins hafði verið sendur í verksmiðju PIP árið 2000 skrifaði fulltrúi eftirlitsins Jean-Claude Mas stofnanda PIP og varaði við því að framleiðslan væri gölluð. Þá var um að ræða brjóstafyllingar sem gerðar voru úr saltlausn en þeir púðar sem nú eru til umræðu eru gerðir úr sílikoni.

Ekki er vitað hvers vegna bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið gekk ekki harðara fram í því að fá stjórnendur PIP til að laga framleiðslu sína og jafnframt er óljóst hvort þau hafi deilt vitneskju sinni um stöðu mála hjá fyrirtækinu með frönskum stjórnvöldum. Nú hefur verið gefin út alþjóðleg handtökuskipun á stofnanda fyrirtækisins, en ekki er vitað hvar hann heldur sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×