Talið er að um fjögur hundruð íslenskar konur séu með sílikonpúða frá franska framleiðendum PIP sem hugsanlega geta valdið heilsutjóni. Stofnandi fyrirtækisins er eftirlýstur af Interpol.
Yfirvöld í Frakklandi greindu frá því rétt fyrir jól að hætta sé talin stafa af sílíkonpúðum frá PIP (Poly Implant Prothese).
Fyrirtækið var þriðji stærsti framleiðandi heims á sílikonpúðum sem voru með þeim ódýrustu á markaðnum. PIP fór í þrot á síðasta ári en í ljós kom að hluti púðana fór ekki í gegn um viðunandi gæðaferli og því aukin hætta á að þeir rifni.
Stofnandi fyrirtækisins, Jean-Claude Mas, er farinn í felur og hefur Interpol gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur honum. Hann er 72ja ára gamall og starfaði sem slátrari þar til hann fór að framleiða brjóstapúða.
Enginn miðlægur gagnagrunnur yfir sílíkonaðgerðir er til á Íslandi en samkvæmt þeim upplýsingum sem Geir Gunnlaugsson, landlæknis, hefur fengið eru um fjögur hundruð konur á landinu með púða frá PIP, og hafa fleiri en einn læknir notað púðana við brjóstastækkanir.
Geir segir að hér á landi sé tekið á málinu af mikilli alvöru og festu. Hann fylgist náið með framvindu mála í nágrannalöndum okkar, þar sem púðarnir voru einnig notaðir. Tillögur um á hvern hátt eigi að bregðast við hér á landi eru nú til skoðunar innan embættisins í samvinnu við viðeigandi fagfólk og stofnanir.
Að mati Lyfjastofnunar hefur ekkert komið fram sem bendir til að fjarlægja þurfi alla púðana.
Áhyggjufullum konum með sílíkonpúða er bent á að hafa samband við sinn lækni.