Fótbolti

Real Madrid vann 3-1 bikarsigur á nágrönnunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo í leiknum í kvöld.
Cristiano Ronaldo í leiknum í kvöld. Mynd/AP

Real Madrid vann 3-1 sigur á nágrönnum sínum í Atlético Madrid í kvöld í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum spænska Konungsbikarsins. Seinni leikurinn fer fram á heimavelli Atlético Madrid eftir viku.

Diego Forlan kom Atlético Madrid í 1-0 efir aðeins sjö mínútna leik eftir að hafa fengið sendingu frá Argentínumanninum Sergio Agüero. Sjónvarpsmyndir sýndu þó að Agüero var rangstæður þegar hann fékk boltann inn fyrir vörn Real Madrid frá José Antonio Reyess.

Sergio Ramos jafnaði leikinn á 14. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Angel Di María og þannig var staðan í hálfleik.

Cristiano Ronaldo kom Real Madrid í 2-1 á 63. mínútu með marki úr markteignum eftir að hafa fengið sendingu frá Þjóðverjanum Mesut Özil.

Mesut Özil innsiglaði síðan sigurinn með þriðja markinu í uppbótartíma og Real Madrid er því í ágætum málum fyrir seinni leikinn. Barcelona er þó í mun betri stöðu eftir 5-0 sigur í fyrri leiknum á móti Real Betis í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×