Viðskipti innlent

Seldu gangagögnin á 100 milljónir

Vegagerðin keypti í árslok 2009 rannsóknargögn Greiðrar leiðar hf. vegna ganga undir Vaðlaheiði á 100 milljónir króna. Að sögn Hreins Haraldssonar vegamálastjóra rennur þessi upphæð inn í Vaðlaheiðargöng hf. sem hluti hlutafjár Vegagerðinnar í félaginu.

Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og fulltrúi Greiðrar leiðar í stjórn Vaðlaheiðarganga, segir stærsta hluta kostnaðarins vegna rannsóknargagnanna felast í jarðfræðirannsóknunum og borunum sem gerðar voru undir stjórn Ágústs Guðmundssonar jarðfræðings á árinu 2005. Margar fleiri úttektir liggi einnig að baki, til dæmis varðandi hugsanlegar fornminjar á svæðinu.

Í ársreikningi Greiðrar leiðar fyrir árið 2008 eru rannsóknargögn félagsins metin á 60,2 milljónir króna. Vegagerðin greiddi hins vegar 100 milljónir fyrir gögnin ári síðar, eins og fyrr segir.

„Mismunurinn er uppsafnaðar verðbætur sem samkomulag var um að greiddar yrðu ofan á kostnaðinn,“ útskýrir Pétur Þór og undirstrikar að aðeins sé um verðbætur að ræða; engir vextir hafi verið reiknaðir ofan á útlagðan kostnað Greiðrar leiðar. - gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×