Erlent

Hreinsun tekur mánuði eða ár

Hópur fólks lét í sér heyra í gær fyrir utan höfuðstöðvar fyrirtækisins TEPCP í Tókýó, sem rekur kjarnorkuverið í Fukushima. nordicphotos/AFP
Hópur fólks lét í sér heyra í gær fyrir utan höfuðstöðvar fyrirtækisins TEPCP í Tókýó, sem rekur kjarnorkuverið í Fukushima. nordicphotos/AFP
„Við getum ekkert sagt sem stendur um það hve marga mánuði eða hve mörg ár það mun taka,“ sagði Sakae Muto, aðstoðarforstjóri orkufyrirtækisins TEPCO, sem rekur kjarnorkuverið í Fukushima, spurður hvenær búið yrði að hreinsa kjarnorkuverið svo engin hætta stafaði af geislamengun þar.

Geislavirkni mælist í vatni í fjórum kjarnaofnum versins, sums staðar langt yfir hættumörkum. Mengunin hefur borist um nágrennið, en um sjö hundruð manns vinna nú að því að halda menguninni í lágmarki. Sú vinna hefur gengið hægt og erfiðlega.

Í gær fullyrti orkufyrirtækið TEPCP, sem rekur kjarnorkuverið í Fukushima, að geislavirkni í vatni eins kjarnaofnsins hefði mælst tíu milljón sinnum meiri en eðlilegt þykir. Fáeinum klukkustundum síðar baðst fyrirtækið afsökunar og sagði þetta rangar tölur: geislavirknin hafi í raun mælst hundrað þúsund sinnum meiri en venjulega, sem engu að síður er mjög hátt.

Jarðskjálftinn 11 mars mældist 9 stig og hratt af stað allt að tíu metra hárri flóðbylgju. Hamfarirnar hafa kostað meira en tíu þúsund manns lífið, sem vitað er um, en að auki er meira en sextán þúsund manns saknað. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×