Fótbolti

Barca gegn Real í kvöld: Fyrsti stóri titill ársins í boði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pep Guardiola og José Mourinho heilsast fyrir leik Barcelona og Real Madrid um helgina.nordicphotos/afp
Pep Guardiola og José Mourinho heilsast fyrir leik Barcelona og Real Madrid um helgina.nordicphotos/afp
Barcelona og Real Madrid eigast við í úrslitaleik spænsku bikarkeppninnar á Mestalla-vellinum í Valencia í kvöld. Um risaslag er að ræða, eins og ávallt þegar þessi tvö lið eiga í hlut. Þau mættust í spænsku úrvalsdeildinni um helgina og skildu þá jöfn, 1-1.

Þess má svo geta að þau mætast tvívegis í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á næstu vikum.

Barcelona er svo gott sem búið að tryggja sér spænska meistaratitilinn enda með átta stiga forystu á Real. Það er því kappsmál fyrir Madrídinga að láta þennan titil sér ekki úr greipum renna og það til erkifjenda sinna.

"Það getur allt gerst í þessum leik og stemningin verður sjálfsagt hátíðleg," sagði Pep Guardiola, stjóri Barcelona. "Við verðum fyrst og fremst að hvetja okkar menn áfram en bera samt virðingu fyrir andstæðingnum."

Hann sagði að sínir menn væru búnir að skoða leik helgarinnar vel. "Við þurfum að spila betur, skapa fleiri færi og láta boltann ganga hraðar á milli okkar."

Barcelona varð síðast bikarmeistari árið 2009 og fór úrslitaleikurinn þá einnig fram á sama stað. Bið Madrídinga er talsvert lengri, en liðið varð síðast meistari árið 1993. Iker Casillas, sem hefur staðið vaktina í marki Real síðan 2000, hefur unnið alla titla sem í boði eru nema þennan.

José Mourinho, stjóri Real, hefur unnið bikarmeistaratitil í öllum þeim þremur löndum þar sem hann hefur þjálfað hingað til og getur bætt þeim fjórða í safnið í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×