Innlent

Skilur loks gamlar sagnir

Soffía segir ótrúlegt að upplifa svona náttúruhamfarir tvisvar á rúmu ári. fréttablaðið/valli
Soffía segir ótrúlegt að upplifa svona náttúruhamfarir tvisvar á rúmu ári. fréttablaðið/valli
„Það kom enginn í fyrra þegar við upplifðum nákvæmlega það sama. Nú erum við miðdepill alls hérna,“ segir Soffía Gunnarsdóttir, starfskona á dvalarheimilinu Klausturhólum. Soffía býr á bænum Jórveri 1 í Álftaveri, og er þetta í annað sinn á rúmu ári sem hún verður fyrir fyrir barðinu á öskugosi.

Askan úr Eyjafjallajökli lagðist jafnþétt yfir bæinn hennar 15. apríl á síðasta ári eins og hún gerði nú um helgina.

„Sú tilfinning sem helltist yfir mig þegar ég sá að þetta var að byrja aftur er ólýsanleg,“ segir Soffía. „Það er ótrúlegt að vera í svona aðstæðum. Maður er að lesa gamlar sagnir þar sem fólk segir að það sjái ekki handa sinna skil og nú skilur maður það. Ég sá ekki útrétta höndina um hábjartan dag.“

Soffía keyrði af stað í vinnuna á sunnudagsmorguninn og sá eftir því um leið og hún var lögð af stað. „Þegar ég komst loks inn í Kirkjubæjarklaustur endaði ég uppi á umferðareyju.“

Sigþrúður Ingimundardóttir, forstöðukona á Klausturhólum, segir að þrátt fyrir mikið öskufall beri íbúarnir sig vel. Hún keyrði í vinnuna á sunnudag einungis eftir minni. Svo mikið var myrkrið.

„Það er mikill munur í dag. Við erum komin með birtu,“ segir hún. „En þrátt fyrir niðamyrkrið ber fólk sig vel. Skaftfellingar búa yfir jafnaðargeði og við tökum þessu með stóískri ró.“ - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×