Lífið

Mjólkar kýr í Katalóníu

Ánægð í Katalóníu Hjördís Ólafsdóttir hefur verið búsett á Spáni í fimm ár. Hún býr í þorpinu Olot ásamt konu sinni og hundum þeirra og köttum.
Ánægð í Katalóníu Hjördís Ólafsdóttir hefur verið búsett á Spáni í fimm ár. Hún býr í þorpinu Olot ásamt konu sinni og hundum þeirra og köttum.
Hjördís Ólafsdóttir hefur verið búsett á Spáni undanfarin fimm ár og líkar vel. Hún starfar á bóndabæ í Katalóníu og segist ekki vilja flytja heim aftur í bráð.

Hjördís flutti ásamt þáverandi kærustu sinni til Spánar árið 2006 og bjó fyrsta árið í Barcelona. Henni þótti þó nóg um hávaðann og lætin sem fylgdu stórborginni og flutti í fjallaþorpið Olot þar sem hún býr enn. „Ég vinn á bóndabæ hér í grenndinni. Býlið var byggt til að skapa atvinnu fyrir geðfatlaða og þroskahefta og ég sé bæði um að aðstoða þá við sína vinnu og að mjólka kýrnar,“ segir Hjördís sem býr sjálf í miðbæ Olot ásamt konu sinni, hundum og köttum.

„Ég veit eiginlega ekki hvernig ég endaði í Olot. Mér fannst Barcelona alltof stór og hávær og henni fylgdi mikið stress. Ég er frá Ísafirði sjálf og hef alltaf verið meira fyrir þorpsstemninguna.“

Hjördís gifti sig í júní og í tilefni þess var haldin stór og fjölþjóðleg veisla. Vinir Hjördísar sáu um skemmtiatriði og buðu upp á tónlist og dansatriði. „Við gerðum þetta bara eftir okkar höfði og giftum okkur hjá dómara á föstudegi en héldum svo veisluna á laugardegi.

Vinur okkar, sem er trúður að atvinnu, brá sér í hlutverk prests og eftir athöfnina afklæddist hann kuflinum og var þá í veislufötum innan undir. Nokkrir vinir mínir komu alla leið frá Íslandi til að fagna með okkur og vinir konu minnar komu frá Spáni þannig að gestalistinn var mjög blandaður og fjögur tungumál töluð í veislunni, spænska, katalónska, íslenska og enska.“

Hjördís keypti sér hús í Olot fyrir skemmstu og segist ekki ætla að flytja aftur heim á næstunni. „Ég er gott sem orðin spænsk,“ segir hún og hlær. „Ég hef það mjög fínt hérna og vil vera hér áfram.“- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×