Lífið

Hollywood Reporter á Íslandi

ánægð Hrönn Marinósdóttir hjá Riff er mjög ánægð með aðsóknina á hátíðina.
fréttablaðið/gva
ánægð Hrönn Marinósdóttir hjá Riff er mjög ánægð með aðsóknina á hátíðina. fréttablaðið/gva
„Þetta er alveg frábært og mikill heiður,“ segir Hrönn Marinósdóttir hjá Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, Riff.

Blaðamaðurinn Georg Szalai frá hinu virta bandaríska kvikmyndatímariti Hollywood Reporter er staddur á hátíðinni og er þetta í fyrsta sinn sem fulltrúi tímaritsins mætir á hana. „Hann er svakalega áhugasamur og ætlar að skrifa fullt af greinum um hinar ýmsu hliðar Íslands og kvikmyndagerðarinnar,“ segir Hrönn Marinósdóttir hjá Riff.

Szalai ætlar að taka viðtöl við Arnar Þórisson hjá fyrirtækinu Caoz sem frumsýnir teiknimyndina um Þór 14. október. Einnig ræðir hann við Einar Hansen sem hefur unnið við að kynna Ísland sem hentugan tökustað fyrir erlenda framleiðendur.

Blaðamaður frá New York Times er einnig á landinu og er það sömuleiðis í fyrsta sinn sem fulltrúi þaðan sækir Riff heim. Grein um hátíðina birtist í þessu fræga blaði á næstu dögum. Að auki verður Hrönn sjálf í viðtali við blaðamann breska blaðsins The Guardian. Blaðamaðurinn fór með henni og hópi kvikmyndaáhugamanna í óvissuferð í gær í helli í Bláfjöllum undir yfirskriftinni Í iðrum jarðar.

Rúmensk sjónvarpsstöð hefur sömuleiðis verið hér á landi í tilefni þess að rúmenskri kvikmyndagerð er gert hátt undir höfði á hátíðinni, sem lýkur á sunnudag.

Hrönn er annars mjög ánægð með aðsóknina á Riff og telur að hún hafi aukist um 10 prósent frá því í fyrra, þegar gestirnir voru 25 þúsund talsins. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×