Lífið

Tíu klukkutíma með eina plötu

plata á tíu tímum Þórir eyddi aðeins tíu klukkustundum í að taka upp sína nýjustu plötu.fréttablaðið/valli
plata á tíu tímum Þórir eyddi aðeins tíu klukkustundum í að taka upp sína nýjustu plötu.fréttablaðið/valli
Tónlistarmaðurinn Þórir Georg tók upp sína nýjustu plötu, Afsakið, á aðeins tíu klukkustundum. Þetta er fyrsta sólóplatan hans á íslensku.

„Ég hef alltaf skrifað á íslensku líka. Núna átti ég svo mikið af lögum að mig langaði að gefa þau út á plötu,“ segir Þórir. Spurður um tímann sem fór í upptökurnar segir hann: „Ég eyddi svona tíu klukkutímum í að gera þessa plötu, hámark. Þegar ég var búinn að semja lögin eyddi ég einu laugardagskvöldi í að taka hana upp og einum sunnudegi í að klára að vinna hana. Ég tók hana upp sjálfur eins og ég hef eiginlega alltaf gert en munurinn var að núna var ég með tilbúin lög og ákvað bara: „Ég ætla að taka þau upp í kvöld“.“

Afsakið er fyrsta plata Þóris undir eigin nafni. Áður hefur hann gefið út þrjár undir nafninu My Summer As a Salvation Soldier og kom sú fyrsta, I Believe in This, út 2004 við góðar undirtektir tónlistargagnrýnenda. Vegleg safnplata með því besta af plötunum þremur er einmitt væntanleg.

Tónlist Þóris er sem fyrr melódísk og tregablandin með persónulegum sögum hans úr daglegu lífi í fyrirrúmi. „Þetta er ekkert ólíkt því sem ég var að semja á ensku. Þetta er mín útgáfa á mannfræði. Ég er að rannsaka mig og fólkið í kringum mig.“

Þórir hefur einnig starfað með Gavin Portland, Fighting Shit, The Deathmetal Supersquad og Ofvitunum. Plata með pönksveitinni síðastnefndu kom einmitt út í sumar. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.