Lífið

Rændur rétt fyrir Airwaves

leiðindi Brotist var inn til tónlistarmannsins Ragnars Árna. Hann vonar að ránsfengnum verði skilað.
fréttablaðið/Stefán
leiðindi Brotist var inn til tónlistarmannsins Ragnars Árna. Hann vonar að ránsfengnum verði skilað. fréttablaðið/Stefán
„Það eru nokkrir með aðstöðu þarna, en það var farið inn í herbergið mitt,“ segir tónlistarmaðurinn Ragnar Árni Ágústsson.

Brotist var inn í æfingahúsnæði Ragnars síðasta föstudag og áætlar hann að hljóðfærum og öðrum hlutum að andvirði 250 þúsund krónur hafi verið rænt. Þar á meðal voru harðir diskar sem höfðu að geyma upptökur sem Ragnar hafði unnið að síðustu misseri. „Hljóðnemum var stolið, heyrnartólum, kassagítarnum mínum og fleira dóti,“ segir hann.

„Það var verst að missa hörðu diskana. Þeir höfðu að geyma upptökur og hugmyndavinnu. Ég er búinn að ferðast í kringum landið og taka upp læki og fossa, sem tók langan tíma.“

Ragnar er saxófónleikari og leikur meðal annars undir í Sólskuggum Bubba Morthens. Þá er annasamasta vika íslenskra tónlistarmanna gengin í garð, en Iceland Airwaves-hátíðin hefst á miðvikudag. Innbrotið kemur ekki í veg fyrir að Ragnar komi fram með Berndsen, Jónasi Sig og Samúel Samúelssyni. „En það er hægt að segja að þetta sé búið að valda mikilli truflun,“ segir hann.

Ragnar segir að fólk hafi bent honum á að tala við Bubba Morthens, sem hafi hjálpað til að leysa svipuð mál. „Ég er búinn að tala við umboðsmanninn hans, hann ætlar að kíkja á þetta fyrir mig,“ segir Ragnar og biðlar til þjófanna að skila ránsfengnum.

„Þeir þurfa bara að hringja í mig. Ég gæti sótt þetta hvert sem er. Þeir gætu nefnt stað og stund og þá væri málið dautt.“- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.