Lífið

Javier Bardem gerir Bond lífið leitt

Svalur Javier Bardem hefur verið ráðinn til að leika illmennið í Bond-mynd númer 23.
Svalur Javier Bardem hefur verið ráðinn til að leika illmennið í Bond-mynd númer 23.
Stærstu fréttirnar í Hollywood í gær voru án nokkurs vafa þær að Javier Bardem myndi leika aðalskúrkinn í Bond-mynd númer 23. Þar með er það staðfest að framleiðendur Bond-myndanna ætla að leggja allt í sölurnar fyrir hálfrar aldar afmæli myndanna um leyniþjónustumanninn.

Bardem staðfesti orðróminn í viðtali við fréttaþáttinn Nightline, en spænski leikarinn fer fyrir samtökum sem hafa það á stefnuskrá sinni að bjarga flóttamönnum frá Vestur-Sahara og var að kynna þau. „Þau völdu mig til að leika og ég er mjög spenntur. Foreldrar mínir fóru með mig á myndirnar í æsku og ég hef séð þær allar. Þannig að það að leika í þeim verður mjög skemmtilegt,“ sagði Bardem en bætti því strax við að hann gæti, eðli málsins samkvæmt, ekki tjáð sig neitt frekar um hlutverkið.

Ráðning Bardems þykir mjög metnaðarfull enda ekki á hverjum degi sem Óskarsverðlaunahafi er fenginn til að túlka illmennið í James Bond-mynd. Fáir efast þó um hæfileika Spánverjans til að leika fúlmenni enda gleymist það seint þegar hann birtist á hvíta tjaldinu sem morðóði og tilfinningalausi leigumorðinginn Anton Chigurh í No Country for Old Men. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×