Lífið

Hemmi og Valdi hefja sig til flugs

Djarfir ofurhugar Valdimar Geir og Hermann Fannar hafa í hyggju að opna ferðaskrifstofu með möguleika á flugrekstrarleyfi.
Fréttablaðið/Anton
Djarfir ofurhugar Valdimar Geir og Hermann Fannar hafa í hyggju að opna ferðaskrifstofu með möguleika á flugrekstrarleyfi. Fréttablaðið/Anton
„Við horfum til þess fyrirkomulags sem er við lýði hjá Virgin og Ryanair,“ segir Hermann Fannar Valgarðsson.

Tvíeykið Hemmi og Valdi, eða Hermann Fannar og Valdimar Geir Halldórsson, skoða það nú af fullri alvöru að stofna flugfélag. Eða ferðaþjónustufyrirtæki með möguleika á flugrekstrarleyfi eins og þeir kalla það. Þetta staðfestir Hermann í samtali við Fréttablaðið en segir málið á viðkvæmu stigi.

Hermann segir það ekki ókeypis að leigja og reka flugvél en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er startkostnaðurinn í kringum 200 milljónir. Hermann vildi sem minnst tjá sig um málið en sagði að hugmyndin væri sú að flugvél yrði tekin á leigu, hún nýtt til fullnustu og henni flogið hingað, smekkfullri af ferðamönnum. Flugið yrði bæði fyrir erlenda ferðamenn og Íslendinga en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvaðan verður flogið, það sé í skoðun.

Hermann og Valdimar hafa að undanförnu gert sig gildandi í ferðaþjónustu með gistiheimilarekstri en þeir reka meðal annars Reykjavik Backpackers í hjarta Reykjavíkur og eru að fara að opna svipað gistiheimili á Akureyri. Þá reka þeir einnig tvö kaffihús við Laugaveginn; Tíu dropa og Nýlenduvöruverslun Hemma og Valda. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.