Bresku tískuverðlaunin voru afhent á mánudagskvöldið í London þar sem gestir á rauða dreglinum voru hver öðrum glæsilegri.
Viðburðurinn er eins konar uppskeruhátið breskra fatahönnuða og verðlaun voru veitt í ýmsum flokkum. Sarah Burton, yfirhönnuður Alexander McQueen, hreppti aðalverðlaun kvöldsins sem hönnuður ársins en Burton þykir hafa átt þátt í tískuaugnabliki ársins þegar hún hannaði fallegan brúðarkjól Katrínar, hertogaynju af Cambrigde, í vor. Victoria Beckham tárfelldi er henni var opinberlega tekið opnum örmum af tískuheiminum og merki hennar valið fatamerki ársins.
