Lífið

Muggi eldar í Hörpu

„Þetta er það frábært framtak að það kallar á stuðning,“ segir Jakob Einar Jakobsson, rekstrarstjóri og eigandi veitingastaðarins Munnhörpunnar, sem er á fyrstu hæð Hörpu. Jakob er ættaður að vestan eins og Mugison og segist strax hafa fundist þau verða að taka á einhvern hátt þátt í viðburðinum frá því að hann frétti af ókeypis tónleikum tónlistarmannsins, sem haldnir verða í Hörpu hinn 22. desember.

„Ég hafði samband við pabba Mugison, en hann hefur haft puttana í hinni frægu fiskisúpu á Aldrei fór ég suður frá upphafi. Hann ætlar að koma til okkar og matreiða súpuna sem verður réttur dagsins hjá okkur á Munnhörpunni þetta kvöld.“ Ágóðinn af súpunni mun svo allur renna til Mæðrastyrksnefndar og Jakob segist vonast til að hann muni nýtast vel svona rétt fyrir jólin.

Jakob segir að það liggi við að samviskubitið hafi ráðið förinni þegar hugmyndin fæddist.

„Já, maður fékk næstum samviskubit yfir því að fá þennan frábæra listamann og þetta skemmtilega framtak inn í húsið. Mér fannst bara borðleggjandi að sem flestir ættu að reyna að taka þátt í einhverju svona sem vekur upp samhug hjá fólki.“

-bb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×