Lífið

Dagur Kári skiptir um lið

Dagur Kári er genginn til liðs við Baltasar Kormák eftir að hafa gert þrjár kvikmyndir undir merkjum ZikZak.
Dagur Kári er genginn til liðs við Baltasar Kormák eftir að hafa gert þrjár kvikmyndir undir merkjum ZikZak. Mynd/Anton
Baltasar Kormákur og fyrirtækið hans, Blueeyes, mun framleiða næstu kvikmynd Dags Kára Péturssonar. „Myndin er á íslensku og Dagur Kári er að skrifa handritið núna," segir Baltasar í samtali við Fréttablaðið, en hann er staddur í Frakklandi að kynna væntanlega kvikmynd sína, Djúpið.

Þetta verður fyrsta mynd Dags Kára á móðurmálinu frá því að Nói albínói sló eftirminnilega í gegn. Hann hefur í millitíðinni gert Voksne Mennesker, sem var á dönsku, og The Good Heart með þeim Brian Cox og Paul Dano í aðalhlutverkum, en hún var á ensku.

Fréttablaðið reyndi án árangurs að ná sambandi við Dag Kára í gær. Kvikmyndaleikstjórinn hefur gert sínar þrjár myndir í samstarfi við ZikZak og Þórir Snær Sigurjónsson, framleiðandi þar á bæ, segir flutninginn vera í fullri sátt.

„Ég held að hann hafi bara viljað breyta aðeins til. Og það var ekkert vandamál af okkar hálfu, við ræddum þetta bara í fullri vinsemd og engum hurðum var skellt," segir Þórir Snær. -fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.