Lífið

Fékk gullplötu og keypti þvottavél

„Við erum mjög sáttir við þetta. Þetta eru að mínu mati mestu verðlaunin sem hægt er að fá í þessum bransa. Þetta eru verðlaun fólksins," segir grínistinn Steindi Jr.

Steindi og leikstjórinn Ágúst Bent fengu í gær afhenta gullplötu fyrir sölu á fyrstu þáttaröð Steindans okkar.

Diskurinn hefur selst í meira en 5.000 eintökum frá því að hann kom út seint á síðasta ári og Steindi er að vonum hrærður og ánægður.

Spurður hvað hann hafi gert fyrir peningana sem diskurinn hefur skilað segir Steindi að upphæðirnar séu ekki háar og hann sé ekki orðinn ríkur. „En þvottavélin mín bilaði um daginn. Þannig að ég keypti mér nýja," segir hann.

Önnur þáttaröð Steindans okkar kom út á dögunum og Steindi bindur miklar vonir við hana. „Ég verð mjög vonsvikinn ef hún fer ekki í gull, því hún er betri en fyrsta þáttaröð," segir hann. -afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×