Lífið

Fanney á flandri um Indland

Sinnir góðgerðarstörfum Fanney Ingvarsdóttir dvaldi í tvær vikur á Indlandi og heimsótti meðal annars munaðarleysingjahæli, sem hún segir hafa verið erfiða og tilfinningaríka reynslu.
Sinnir góðgerðarstörfum Fanney Ingvarsdóttir dvaldi í tvær vikur á Indlandi og heimsótti meðal annars munaðarleysingjahæli, sem hún segir hafa verið erfiða og tilfinningaríka reynslu.
Þetta var mjög lærdómsrík og eftirminnileg reynsla þótt það hafi vissulega verið skrýtið að vera í þrjátíu stiga hita án allra jólalaga í desember,“ segir Fanney Ingvarsdóttir, Ungfrú Ísland. Hún lenti á Íslandi á þriðjudaginn var eftir að hafa verið á Indlandi í tvær vikur við góðgerðarstörf fyrir samtökin Healthy Kids, Happy Kids. Þetta er í annað sinn á árinu sem Fanney heimsækir landið.

Fanney flakkaði um bæði norður- og suðurhluta Indlands og heimsótti meðal annars munaðarleysingjahæli. „Það var ótrúlega erfið og tilfinningarík reynsla,“ segir Fanney, sem var þó ekki ein á ferð. Ferðafélagar hennar voru Ungfrú Kanada, Ungfrú Írland, Miss Bikini International og svo stúlkur frá Slóveníu og Bólivíu. Fanney segir ferðina hafa gert mikið fyrir sig persónulega og bætir því við að hún hafi fengið að skoða landið.

„Við heimsóttum Taj Mahal og Gullna musterið og það var alveg einstakt að sjá þetta með eigin augum,“ segir Fanney, en mengun setti þó eilítið strik í reikninginn.

„Indland er náttúrulega ótrúlega samþjappað land og mengunin er gríðarleg. Fyrstu dagana héldum við að þetta væri þoka sem við sáum en þetta var þá bara mengun,“ útskýrir Fanney, sem fékk af þeim sökum bæði kvef og hálsbólgu.

Vegna ferðalaganna varð skólaganga fegurðardrottningarinnar að sitja eilítið á hakanum. Hún ætlar sér hins vegar að útskrifast frá Fjölbrautaskóla Garðabæjar í vor.

„Og svo er það bara að halda jólin. En svo gætu fleiri ferðalög verið handan við hornið.“- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×