Fótbolti

Servíettan sem breytti sögu Barcelona

Ferill Lionel Messi hjá Barcelona hófst með því að skrifað var undir samning á servíettu. Þessi servíetta hefur breytt sögu Barcelona enda gengi liðsins með Messi fremstan í flokki verið ótrúleg.

Þegar Messi var 13 ára var hann að vonast eftir því að fá samning hjá Barcelona. Hann fór að æfa með liðinu og nokkrum mánuðum síðar var tekin ákvörðun um að veðja á drenginn.

Forráðamenn Barcelona sættu sig við kröfur föður Messi, Jorge, og þegar þeir hittu hann í tennisklúbbi Barcelona krotuðu þeir undir samning á servíettu á staðnum. Það var þann 14. desember árið 2000.

"Ég gleymi því aldrei þegar ég hitti Messi-fjölskylduna í fyrsta skipti. Það var á flugvellinum. Ég leit á strákinn og hugsaði hvar hann ætlaði eiginlega spila. Hann var svo lítill og pervisinn. Ég gat ekki séð fyrir mér að hann ætti eftir að ná langt," sagði einn af þeim forráðamönnum Barcelona sem síðar var ábyrgur fyrir því að semja við Messi.

Það tók sinn tíma að sannfæra þáverandi forseta Barcelona, Joan Gaspart, um að samþykkja samninginn enda hafði Barcelona einnig samþykkt að greiða fyrir vaxtarhormónameðferð drengsins sem var talsvert á eftir öðrum jafnöldrum sínum í líkamlegum þroska.

Servíettan góða er geymd í bankahólfi í Barcelona en líklegt er að hún endi á safni félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×