Körfubolti

NBA í nótt: Fimmti sigur Miami í röð | Dallas og Lakers töpuðu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Udonis Haslem með boltann í nótt.
Udonis Haslem með boltann í nótt. Mynd/AP
Miami hefur nú unnið fyrstu fimm leiki sína á tímabilinu, rétt eins og Oklahoma City, eftir sigur á Charlotte Bobcats í nótt, 129-90.

Þetta er í fyrsta sinn í sögu félagsins sem að Miami byrjar tímabilið með fimm sigurleikjum en sigur liðsins í nótt var öruggur eins og tölurnar bera með sér.

Ekkert lið hefur skorað meira en 129 stig í leik á tímabilinu til þessa og 39 stiga sigur liðsins er sá þriðji stærsti í sögu félagsins.

Chris Bosh skoraði 24 stig, þar af 20 í fyrri hálfleik. Dwyane Wade skoraði 22 stig og þeir LeBron James og Mario Chalmers sextán hvor. DJ White skoraði 21 stig fyrir Charlotte og nýliðinn Kemba Walker sautján.

Minnesota vann loksins sigur í NBA-deildinni en liðið tapaði fyrstu þremur leikjum tímabilsins auk þess sem síðasta tímabili lauk með fimmtán tapleikjum í röð.

Liðið vann meistarana í Dallas í nótt, 99-82, og þar með sinn fyrsta sigur eftir átján tapleiki í röð. Kevin Love var með 25 stig og sautján fráköst auk þess sem hann setti niður tvo mikilvæga þrista í fjórða leikhluta.

Ricky Rubio skoraði fjórtán stig og gaf sjö stooðsendingar en hjá Dallas var Dirk Nowitzki stigahæstur með 21 stig. Dallas hefur aðeins unnið einn leik af fyrstu fimm á tímabilinu.

Denver Nuggets vann LA Lakers, 99-90, þar sem Danilo Gallinario skoraði 20 stig fyrir Denver. Liðin mættust einnig í fyrrinótt en þá hafði Lakers betur. Pau Gasol skoraði 20 stig fyrir liðið en Kobe Bryant sextán.

Þá vann Chicago öruggan sigur á Memphis, 104-64, þar sem Carlos Boozer skoraði sautján stig og Derrick Rose sextán.

Rajon Rondo átti stórleik fyrir Boston sem vann Washington, 94-86. Hann skoraði átján stig, gaf fjórtán stoðsendingar og tók ellefu fráköst.

Úrslit næturinnar:

Washington - Boston 86-94

Orlanto - Toronto 102-96

Miami - Charlotte 129-90

Cleveland - New Jersey 98-82

Minnesota - Dallas 99-82

Chicago - Memphis 104-64

Denver - Lakers 99-90

Sacramento - New Orlenas 96-80

LA Clippers - Portland 93-88

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×