Fótbolti

Mourinho setur Pepe í tveggja vikna bann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Varnarmaðurinn Pepe hjá Real Madrid mun ekki spila með liðinu næstu tvær vikurnar en hann traðkaði á hönd Lionel Messi, leikmanni Barcelona, í leik liðanna í spænsku bikarkeppninni í vikunni.

Jose Mourinho, stjóri Real Madrid, er sagður hafa tekið þessa ákvörðun en Pepe var ekki refsað af dómara leiksins vegna atviksins. Sjálfur hefur Pepe beðist afsökunar en sagði þetta ekki viljaverk enda dytti honum aldrei í hug að meiða viljandi annan knattspyrnumann.

Hegðun hans á knattspyrnuvellinum hefur þó margsinnis sýnt fram á annað. Afsökunarbeiðnina má sjá hér fyrir ofan.

Spænska dagblaðið Marca veltir því fyrir sér hvort það sé tilviljun að Pepe meiddist lítillega í vöðva aftan á læri og væri því hvort eð er hvíldinni feginn.

Pepe mun samkvæmt þessu missa af leikjum Real Madrid gegn Athletic Bilbao og Real Zaragoza í deildinni og síðari bikarleiknum gegn Barcelona sem fer fram á Nou Camp á miðvikudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×