Fótbolti

Özil vill klára ferillinn hjá Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mesut Özil.
Mesut Özil. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Mesut Özil, leikmaður Real Madrid og þýska landsliðsins, er aðeins 23 ára gamall en hefur samt þegar sett stefnuna á það að klára ferilinn hjá spænska liðinu. Hann lét hafa það eftir sér í viðtali við þýska blaðið Kicker.

Özil hefur slegið í gegn hjá Real Madrid síðan að hann til félagsins frá Werder Bremen árið 2010. Hann hefur skorað 1 mark og gefið 13 stoðsendingar í 19 deildarleikjum á þessu tímabili og var með 6 mörk og 19 stoðsendingar í 36 leikjum á síðustu leiktíð.

„Ég vil klára ferillinn hjá Real Madrid og taka þátt í sigurgöngu félagsins á komandi árum," sagði Mesut Özil sem segist þó gera sér vel grein fyrir því að Real muni halda áfram að fá til sín heimsklassa leikmenn og því verður það erfitt að halda sæti sínu í meira en tíu ár til viðbótar.

Real Madrid er nú með sjö stiga forskot á Barcelona í baráttunni um spænska meistaratitilinn og er Özil viss um að Real vinni titilinn haldi liðið áfram á sömu braut. „Ef við höldum áfram svona þá nær okkur enginn," sagði Özil. Real hefur unnið 15 af síðustu 16 deildarleikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×