Fótbolti

Real Madrid lék sér að Racing Santander

Pepe fagnar Ronaldo í kvöld.
Pepe fagnar Ronaldo í kvöld.
Forskot Real Madrid á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar er orðið 13 stig eftir öruggan, 4-0, heimasigur á Racing Santander í kvöld.

Yfirburðir heimamanna í kvöld voru talsverðir. Cristiano Ronaldo kom Real á bragðið eftir aðeins fimm mínútna leik og heimamenn litu aldrei til baka.

Santander kastaði inn hvíta handklæðinu er varnarmaðurinn Domingu var rekinn af velli á 39. mínútu. Hann fékk tvö gul spjöld fyrir að handleika knöttinn. Skynsamur.

Karim Benzema skoraði annað mark Real rétt fyrir hlé og setti heimamenn í ákaflega þægilega stöðu.

Sveinar Mourinho settu nánast í hlutlausan í síðari hálfleik en hættu samt ekki að skora.

Angel di Maria skoraði þriðja mark Real með glæsilegu langskoti 18 mínútum fyrir leikslok. Benzema skoraði svo annað mark sitt skömmu fyrir leikslok og innsiglaði stórsigur Real Madrid.

Barcelona fær tækifæri til þess að minnka forskotið í tíu stig annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×