Fótbolti

Barcelona tapaði | Búið spil í spænsku deildinni?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Osasuna fagna einu marka sinna í kvöld.
Leikmenn Osasuna fagna einu marka sinna í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Osasuna styrkti stöðu Real Madrid á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar í kvöld með því að vinna 3-2 sigur á Barcelona í stórskemmtilegum leik á heimavelli.

Real Madrid getur nú með sigri á Levante á morgun aukið forystu sína á toppi deildarinnar í tíu stig. Madrídingar hafa vart stigið feilspor að undanförnu og erfitt að ímynda sér að liðið missi niður svo góða forystu á lokaspretti tímabilsins.

Dejan Lekic kom Osasuna í 2-0 í kvöld með tveimur mörkum á fyrstu 22 mínútum leiksins. Alexis Sanchez náði að minnka muninn fyrir Börsunga í upphafi seinni hálfleiks og héldu þá margir að Börsungar myndu taka öll völd á vellinum.

En aðeins fimm mínútum síðar gerði Raul Garcia sér lítið fyrir og skoraði þriðja mark Osasuna með skoti í stöngina og inn af stuttu færi.

Börsungar sóttu nokkuð stíft eftir þetta og uppskáru mark þegar að Cristian Tello skoraði á 73. mínútu. Þeir komu boltanum aftur í netið eftir þetta en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

En Osasuna hélt áfram að sækja líka og átti til að mynda skot í stöng. Á endanum dugðu þessi þrjú mörk til og afar óvænt úrslit staðreynd í spænsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×