Erlent

Mikil spenna fyrir Óskarnum

Bein útsending frá rauða dreglinum hefst klukkan 23:40 á Stöð 2.
Bein útsending frá rauða dreglinum hefst klukkan 23:40 á Stöð 2.
Afhending Óskarsverðlaunanna fer fram í kvöld, en það eru ævintýramyndin Hugo og þögla myndin The Artist sem tilnefndar eru í flestum flokkum.

Stjörnurnar tekur að drífa að Kodak leikhúsinu í Hollywood þegar líða tekur á kvöldið, en bein útsending frá rauða dreglinum hefst klukkan 23:40 á Stöð 2. Verðlaunaafhendingin sjálf hefst svo klukkan hálftvö í nótt, en það er leikarinn Billy Crystal sem er kynnirinn að þessu sinni, í níunda skipti.

Ævintýramyndin Hugo í leikstjórn Martin Scorsese er tilnefnd í flestum flokkum, eða alls ellefu talsins, en í henni segir frá munaðarlausum dreng sem hírist á lestarstöð í París á fjórða áratugnum, og samskiptum hans við dularfullan eiganda leikfangaverslunar.

Þar á eftir kemur svarthvíta, þögla, franska, rómantíska gamandramað The Artist, listamaðurinn, með tíu tilnefningar, en þar segir frá leikara í þöglu myndunum, sem glímir við erfiðleika þegar hljóðmyndir taka við. Sú mynd hlaut þrenn Golden Globe verðlaun, en þau gefa ásamt fjölda Óskarstilnefninga afar gott forspárgildi um sigurlíkur myndarinnar. Veðbankar spá enda myndinni flestir öruggum sigri, og leikstjóra hennar, Michel Hazanavicius, einnig í sínum flokki.

Leikararnir Jean Dujardin úr myndinni Listamanninum og George Clooney úr The Descendants, þykja sigurstranglegastir sem aðalleikarar, Viola Davis úr Húshjálpinni og Meryl Streep úr Járnfrúnni sem aðalleikonur.

Aðrar myndir sem tilnefndar eru í fimm eða fleiri flokkum á verðlaunahátíðinni eru MoneyBall, War Horse, The Descendants og bandarísk endurgerð sænsku kvikmyndarinnar Karlar sem hata konur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×