Bandaríski spretthlauparinn Kristi Castlin átti besta tíma ársins í 60 metra grindarhlaupi en fær þó ekki tækifæri til að vinna gull á Heimsmeistaramóti innanhúss í frjálsum íþróttum sem stendur nú yfir í Istanbul í Tyrklandi.
Kristi Castlin tók þátt í öðrum undanriðlinum af fjórum í 60 metra grindarhlaupinu í dag. Hún hélt af einhverjum ástæðum að um þjófstart væri að ræða og hætti því að hlaupa. Andstæðingar hennar í hlaupinu brunuðu hinsvegar í mark.
Castlin kvartaði við dómara keppninnar en það dugði ekkert. Hún var dæmd úr leik og úrslitin voru látin standa. Þrjár efstu í hverjum riðli komust áfram í undanúrslitin auk fjögurra sem voru með besta tímann af þeim sem eftir stóðu.
Ástralinn Sally Pearson náði bestum tíma í undanriðlunum þegar hún hljóp á 7,85 sekúndum sem er sekúndubroti lakari tími en Castlin hafði náð best á þessu innanhússtímabili.
Sport