Fótbolti

Bikarúrslitaleikurinn verður í Madrid - bara ekki hjá Real

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Barcelona fær ekki að vinna bikarinn á heimavelli Real en næsta bæ við.
Barcelona fær ekki að vinna bikarinn á heimavelli Real en næsta bæ við. Mynd/Nordic Photos/Getty
Stjórn spænska knattspyrnusambandsins ákvað það í dag að úrslitaleikur spænska Konungsbikarsins í fótbolta á milli Barcelona og Athletic Bilbao fari fram á Estadio Vicente Calderón í Madrid sem er heimavöllur Atlético Madrid.

Barcelona vildi að leikurinn færi fram á Estadio Vicente Calderón sem fékk 22 atkvæði en forráðamenn Athletic Bilbao vildu að leikurinn fær fram á Estadio Olímpico de La Cartuja í Sevilla sem fékk bara 14 atkvæði. Félögin gátu ekki komið sér saman um leikstað og því þurfti stjórnin að kjósa um það.

Bæði félög vildu reyndar að úrslitaleikurinn færi fram á Estadio Santiago Bernabéu í Madrid, heimavelli Real Madrid, en forráðmenn Real tóku það ekki í mál enda örugglega versta matröð Real-manna að horfa upp á Barca vinna titil á þeirra heimavelli.

Úrslitaleikurinn fer því fram 25. maí fyrir framan 51 þúsund manns á Estadio Vicente Calderón. Ein af aðalástæðunum fyrir því að forráðamenn Athletic Bilbao vildu ekki að leikurinn færi fram þar er að fimm dögum fyrr verða þar tónleikar með Coldplay. Það er því líklegt að grasið á vellinum verið ekki í toppstandi eftir hoppandi tónleikagesti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×