Fótbolti

Messi í banni um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Lionel Messi fær sjaldgæfa hvíld þegar Barcelona fær Sporting Gijon í heimsókn í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta á laugardaginn. Barcelona er tíu stigum á eftir toppliði Real Madrid og má ekki við því að misstíga sig í fleiri leikjum.

Lionel Messi tekur út leikbann í leiknum en hann hefur fengið fimm gul spjöld á tímabilinu. Messi hefur skorað 28 mörk og lagt upp önnur 11 í 24 deildarleikjum á þessu tímabili og það þykir mörgum forvitnilegt að sjá hvernig Barcelona-liðinu gengur án Argentínumannsins.

Messi fékk sitt fimmta gula spjald strax á sjöundu mínútu í sigrinum á Atlético Madrid á dögunum en Messi skoraði síðan sigurmarkið ellefu mínútum fyrir leikslok með skoti beint úr aukaspyrnu.

Það má búast við því að Pedro Rodriguez og Alexis Sanchez spili saman í framlínunni á móti Sporting Gijon en Pedro hefur ekki fengið alltof mörg tækifæri með Barcelona í vetur og er aðeins með 1 mark í 16 deildarleikjum á tímabilinu. Hann hefur hinsvegar skorað 4 mörk í 6 leikjum í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×