Viðskipti innlent

Hætta öllum viðskiptum við Íslendinga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Deutsche Fischfang Union, dótturfélag Samherja, hefur ákveðið að hætta tímabundið öllum viðskiptum við íslenska lögaðila. DFFU er grunað um að hafa brotið lög um gjaldeyrisviðskipti eins og fram kom í fréttum í síðustu viku.

Fyrirtækið mun ekki selja afurðir sínar í gegnum íslensk sölufyriræki, sækja þjónustu eða landa úr skipum félagsins á Íslandi. Einnig sér fyrirtækið sér ekki annað fært en að segja upp samningi um afhendingu hráefnis til fiskvinnslu Samherja á Dalvík. Fram kemur í fréttatilkynningu frá DFFU að til hafi staðið að skip DFFU myndu á þessu ári landa um 3.500 tonnum af ferskum slægðum þorski á Íslandi á tímabilinu 15. apríl fram til 1. september.

Stjórnendur DFFU segjast harma að þurfa að taka þessa ákvörðun en þeir sjái ekki aðra leið færa á meðan ekki hafi verið upplýst hvað fyrirtækið er grunað um að gera rangt í viðskiptum á Íslandi. Félagið telur ekki gerlegt að taka þá áhættu að halda viðskiptum óbreyttum áfram á meðan það er grunað um löbrot af gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands. DFFU hafnar því alfarið að hafa brotið lög.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×