Sport

Einar Daði keppir í Kladno

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Einar Daði er nýorðinn 22 ára.
Einar Daði er nýorðinn 22 ára. Mynd / Valli
Einar Daði Lárusson tugþrautarmaður úr ÍR keppir um helgina á stigamóti Alþjóða frjálsíþróttasambandsins (IAAF) sem fram fer í Kladno í Tékklandi. Fyrir mánuði síðan náði Einar Daði þeim frábæra árangri að ná þriðja sæti á öðru slíku stigamóti sem fram fór á Ítalíu.

Mótið í Tékklandi er þó mun sterkara með 26 keppendur og á Einar Daði 19. besta árangur þeirra, 7590 stig frá því á Ítalíu. Keppnin fer fram á heimavelli heimsmethafans sjálfs, Romans Sebrle, en heimsmet hans er 9026 stig. Sigurvegarinn frá mótinu á Ítalíu, Dmitriy Karpov frá Kasakstan sem á best 8725 stig, verður einnig meðal keppenda. Sex aðrir tugþrautarmenn sem eiga yfir 8000 stig eru einnig skráðir til leiks.

Einar Daði hafnaði í 13. sæti á mótinu í fyrra sem var hans frumraun í tugþraut í karlaflokki. Að sögn Fríðu Rúnar Þórðardóttur hjá frjálsíþróttadeild ÍR stefnir Einar á að bæta sinn besta árangur í þrautinni og ná tíunda sæti í keppninni.

Með Einari Daða í för á mótinu er Þráinn Hafsteinsson, yfirþjálfari hans og fyrrverandi Íslandsmethafi í tugþraut, Kristján Gissurarson, stangarstökksþjálfari Einars Daða, og Stefán Már Ágústsson, nuddari og aðstoðarmaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×