Sport

Ásdís einu sæti frá úrslitunum á öðru stórmótinu í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásdís Hjálmsdóttir.
Ásdís Hjálmsdóttir. Mynd/Stefán
Ásdís Hjálmsdóttir úr Ármanni tókst ekki að tryggja sér sæti í úrslitum í spjótkasti á Evrópumótinu í frjálsum í Helsinki í Finnlandi en undankeppnin fór fram í dag.

Ásdís kastaði lengst 55,29 metra í sínu öðru kasti og sat aftur með sárt ennið eins og á HM í fyrra. Líkt og í Suður-Kóreu í fyrra þá endaði Ásdís í 13. sæti en tólf efstu komust í úrslit.

Ásdís hefði þurft að kasta 56,68 metra til þess að komast inn í úrslitin en hún var að kasta yfir 58 metra á tveimur síðustu mótum sínum fyrir EM.

Ásdís náði sínu lengsta kasti í fyrstu tilraun og þegar koma að lokakastinu var ljóst að hún þurfti að kasta lengra. Spjótið flaug hinsvegar bara 54,54 metra og Ásdís er því úr leik.

FH-ingurinn Trausti Stefánsson hljóp í morgun í undanrásum í 400 metra hlaupi og kom í mark á 48.17 sekúndum. Það er aðeins frá hans besta og dugaði aðeins í 27. sæti en 24 fyrstu komust í milliriðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×