Sport

Helga Margrét verðlaunuð af Háskóla Íslands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sjöþrautarkonan Helga Margrét Þorsteinsdóttir hlaut í gær styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Helga Margrét er skráð í nám í næringarfræði í haust.

Alls styrkir Háskóli Íslands 26 nýnema um 300 þúsund krónur auk þess sem þeir fá 60 þúsund króna skráningargjald niðurfellt. Í tilkynningu frá Háskóla Íslands kemur fram að við styrkveitinguna hafi bæði verið horft til afburðaárangurs á stúdentsprófi auk árangurs í íþróttum. Nánar um styrkveitinguna hér.

Helga Margrét, sem er vel þekkt fyrir afrek sín á íþróttavellinum, er ekki síður góður námsmaður. Helga Margrét útskrifaðist frá Menntaskólanum við Hamrahlíð vorið 2011 með 9,83 í meðaleinkunn og var semídúx. Um var að ræða hæstu einkunn semídúx í sögu skólans.

Helga Margrét dvaldi í Växjö í Svíþjóð við æfingar og nám árið 2011-2012. Þar nam hún sænsku og íþróttasálfræði („mental träning") við Linnéuniversitet.

Helga Margrét er nú í kapphlaupi við tímann en frestur til þess að tryggja sig inn á Ólymíuleikana í sjöþraut rennur út 8. júlí. Hún var nokkuð frá sínu besta á Norðurlandamóti ungmenna í fjölþraut í Sandnes í Noregi um helgina. 5645 stig dugðu henni í 2. sætið en Ólympíulágmarkið er 5.950 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×