Felix Sanchez varð í kvöld Ólympíumeistari í 400 metra grindahlaupi karla. Sanchez sem kemur frá Dóminíska lýðveldinu, vann einnig gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Aþenu fyrir átta árum.
Sanchez hafði ekki unnið til gullverðlauna á stórmóti síðan í Aþenu 2004 og sigur hans því nokkuð óvæntur.
Yfirburðir Sanchez voru nokkuð miklir í hlaupinu en hann kom í mark á 47,63 sekúndum og var á undan Bandaríkjamanninum Michael Tinsley sem tók silfurverðlaun og Javier Culson, frá Púerto Ríkó sem náði bronsverðlaunum í kvöld.
Athygli vekur að tími Sanchez er nákvæmlega sá sami og hann náði á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004, þegar hann vann einnig til gullverðlauna. Tíminn sem Sanchez náði í hlaupinu í kvöld var sá besti sem náðst hefur á árinu í greininni.
Sport