Körfubolti

Keflavíkurkonur fá að vera á heimavelli í úrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir.
Pálína Gunnlaugsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir. Mynd/Stefán
Körfuknattleiksamband tilkynnti á heimasíðu sinni að úrslitaleikur Lengjubikars kvenna fari fram í Toyota-höllinni í Keflavík á fimmtudaginn í næstu viku, þann 27. september. Þrjú lið sóttu um að halda úrslitaleikinn og ákvað stjórn KKÍ að fela Keflavík umsjónina með leiknum.

Keflavíkurkonur hafa þegar tryggt sér sæti í úrslitaleiknum í Lengjubikarnum þrátt fyrir að ein umferð sé eftir og fá því að vera á heimavelli í úrslitaleiknum. KR er eina liðið sem getur náð Keflavík að stigum í B-riðlinum en Keflavík vann innbyrðisleik liðanna með 18 stigum og verður því alltaf ofar.

Riðlakeppninni lýkur í dag og þá getur Snæfell tryggt sér sigur í A-riðlinum og þar með sæti í úrslitaleiknum á móti Keflavík. Snæfell heimsækir Hauka á Ásvelli og kemst í úrslitaleikinn með sigri.

Vinni Haukar þá munu Valskonur tryggja sér sæti í úrslitaleiknum með sigri á Fjölni á sama tíma. Haukar gætu líka komist í úrslitaleikinn með sigri en þá þurfa Valskonur að tapa á móti Fjölni. Valskonur búa að því að hafa unnið Hauka með 30 stiga mun.

Leikir dagsins í Lengjubikar kvenna í körfubolta:

16:30 Valur - Fjölnir Vodafonehöllin

16:30 Haukar - Snæfell Schenkerhöllin

16:30 KR - Stjarnan DHL-höllin

16:30 Grindavík - Keflavík Grindavík




Fleiri fréttir

Sjá meira


×