Sport

Ferillinn mögulega búinn hjá Ray Lewis

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Varnartröllið Ray Lewis hjá NFL-liðinu Baltimore Ravens spilar ekki meira með liðinu á tímabilinu vegna meiðsla.

Lewis reif vöðva í handlegg á sunnudag þegar að Baltimore vann nauman sigur á Dallas, 31-29.

„Þegar við sátum með Ray inn í búningsklefa eftir leik vissum við ekki hversu alvarleg meiðslin væru," sagði John Harbaugh, þjálfari Baltimore. „Hann hafði áhyggjur. Hann talaði um trúna sína og sagði ýmislegt sem ég mun aldrei gleyma."

Lewis verður 38 ára gamall í maí næstkomandi og hefur átt glæsilegan sautján ára feril í NFL-deildinni - ávallt með Baltimore Ravens. Hann hefur þrettán sinnum spilað í Pro Bowl, var valinn besti leikmaður Super Bowl þegar að Baltimore varð meistari í janúar árið 2001 og tvívegis verið valinn varnarmaður ársins í NFL-deildinni.

„Hvort hann haldi áfram eða ekki verður Ray sjálfur að tjá sig um," sagði Harbaugh.

Þess má geta að annar varnarmaður Baltimore, Lardarius Webb, sleit krossband í leiknum og þarf í aðgerð af þeim sökum. Er það í annað skipti á ferlinum sem hann meiðist svo alvarlega en hann spilar ekki meira á tímabilinu, rétt eins og Lewis.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×