Lífið

Stúlknagengi og lesbískir kossar

sýnir í bíó paradís Katrina Del Mar sýnir þrjár stuttmyndir sínar í Bíó Paradís í kvöld.fréttablaðið/gva
sýnir í bíó paradís Katrina Del Mar sýnir þrjár stuttmyndir sínar í Bíó Paradís í kvöld.fréttablaðið/gva
Bandaríski leikstjórinn og ljósmyndarinn Katrina Del Mar sýnir þrjár stuttmyndir sínar í Bíó Paradís kl. 20 í kvöld og ræðir við áhorfendur að sýningunni lokinni.

„Þetta eru allt undirheimamyndir sem kostuðu nánast ekkert í framleiðslu. Þetta eru sjálfstæðar myndir um stúlknagengi í New York," segir Del Mar. Myndirnar heita Gang Girls 2000, Surf Gang og Hell on Weels: Gang Girls Forever!

Del Mar var með ljósmyndasýningu í Kaupmannahöfn fyrir skömmu og ákvað í framhaldinu að sýna myndirnar sínar á Íslandi. Hún á íslenskar vinkonur og hefur komið hingað nokkrum sinnum að heimsækja þær.

Nær eingöngu konur leika í myndum hennar, aðallega lesbíur eins og hún sjálf. „Bróðir minn er reyndar í einni myndinni. Hann leikur glæpamann sem er laminn af hópi stelpna," segir hún og hlær.

Del Mar hóf að taka upp myndirnar sínar fyrir þrettán árum á Super 8-myndavél. „Ég er ljósmyndari og ætlaði að taka hópmyndir af vinkonum mínum. Á endanum ákváðum við að gera kvikmynd. Þá vildu allir fá að leika í henni."

Aðspurð nánar um kvikmyndagerð sína segist hún hafa alist upp við að horfa á gagnkynhneigða kossa í kvikmyndum. „Mig langaði að sjá stelpur kyssast. Ég er að reyna að leiðrétta ójafnvægið með því að láta stelpur kela mikið í myndunum mínum," segir hún og hlær. „Þetta eru líka hasarmyndir og fólk ætti ekki að taka þær of alvarlega." -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×