Lífið

Kunnir kappar í Fölskum fugli

Hilmir Snær og Damon Younger leika báðir í Fölskum fugli.
Hilmir Snær og Damon Younger leika báðir í Fölskum fugli.
Hilmir Snær Guðnason, Damon Younger og Þorsteinn Bachmann fara allir með lítil hlutverk í kvikmyndinni Falskur fugl. Tökum á henni lauk á sunnudag og gengu þær eins og í sögu.

"Við vorum mest í Hafnarfirði. Við fengum hús þar sem var notað sem aðaltökustaðurinn," segir leikstjórinn Þór Ómar Jónsson en tökudagarnir voru 23 talsins.

Myndin er byggð á samnefndri bók Mikaels Torfasonar sem kom út árið 1997 og fjallar um Arnald Gunnlaugsson, 16 ára ólíkindatól, sem leiðist inn á rangar brautir í lífinu. Margir ungir leikarar leika í myndinni og er Þór Ómar mjög ánægður með frammistöðu þeirra. "Krakkahópurinn var alveg lygilega flottur og góður. Þetta eru allt, þannig séð, óreyndir krakkar."

Hilmir Snær mætti á síðasta tökudaginn og lék Óla róna í stórri senu. Hlutverk Damons Younger er mjög frábrugðið illmenninu sem hann lék í Svartur á leik því í þetta sinn leikur hann fósturpabba Möggu, sem er kærasta Arnaldar. Arndís Hrönn Egilsdóttir, sem hefur leikið í sjónvarpsþáttunum Pressu, og Hinrik Ólafsson eru einnig á meðal leikara.

Eins og Fréttablaðið hefur áður greint frá fer hinn nítján ára Styr Júlíusson með hlutverk Arnaldar og þau Davíð Guðbrandsson og Alexía Björg Jóhannesdóttir leika foreldra hans. Falskur fugl verður frumsýnd 25. janúar á næsta ári.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×