Lífið

Hauskúpu stolið frá Hörpu

Saknar Freyju Harpa Einarsdóttir saknar hauskúpu gamallar hryssu sem faðir hennar átti. Hauskúpan hvarf af vinnustofu hennar í vikunni.fréttablaðið/anton
Saknar Freyju Harpa Einarsdóttir saknar hauskúpu gamallar hryssu sem faðir hennar átti. Hauskúpan hvarf af vinnustofu hennar í vikunni.fréttablaðið/anton
„Þetta er hauskúpa af meri sem pabbi minn átti og var mér mjög kær. Hún hékk uppi á vegg á vinnustofunni minni og nú er hún horfin og ég hef ekki hugmynd um hvar hún er niðurkomin," segir fatahönnuðurinn Harpa Einarsdóttir, sem varð fyrir því óláni í vikunni að hauskúpu í hennar eigu var stolið.

Hauskúpan var af meri sem áður var í eigu föður Hörpu og löngu dauð. „Systir mín fann beinagrindina á jörðinni hans pabba fyrir tveimur árum og þá var búið að éta allt af henni þannig að beinin voru mjög hrein. Ég gróf þau upp í hittiðfyrra og raðaði saman fyrir sýningu sem ég hélt, en merin hafði þá verið dáin í mörg, mörg ár," útskýrir Harpa.

Það var aðeins hauskúpan sem Harpa geymdi á vinnustofu sinni og grunar hana að merinni hafi líkað það illa þar sem töluverður draugagangur hafi ríkt í húsnæðinu undanfarið. „Beinagrindin er geymd annars staðar og það gæti verið að Freyja hafi verið ósátt við að höfuðið væri skilið frá búknum. Það var í það minnsta einhver draugagangur á vinnustofunni áður en hauskúpan hvarf og ég held að þeir sem tóku hana verði ekki ánægðir með krafsið og hneggið sem fylgir henni."

Harpa vonar að hauskúpan komist í réttar hendur sem fyrst þar sem hana langar að sameina höfuð og búk merarinnar Freyju. „Ég vona að hauskúpan komist til skila og ef einhver veit hvar hún er niðurkomin má sá hinn sami hafa samband við mig í gegnum Facebook." - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×