Lífið

1.500 lið þegar skráð í íslenska útgáfu af Fantasy-deildinni

Aron Már Smárason og Fannar Berg Gunnólfsson hafa stofnað íslenska Fantasy-deild á vefnum fantasydeildin.net.
Aron Már Smárason og Fannar Berg Gunnólfsson hafa stofnað íslenska Fantasy-deild á vefnum fantasydeildin.net. fréttablaðið/pjetur
Þúsundir íslenskra fótboltaáhugamanna eru skráðar til leiks í Fantasy-deild ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta. Nú hefur íslensk deild verið sett á laggirnar.

Yfir 1.500 manns hafa skráð sig í íslensku Fantasydeildina sem opnaði fyrir helgi.

„Þetta er búin að vera rosa keyrsla í tvo mánuði. Við fórum svolítið seint af stað með þetta og verðum að vinna í síðunni alveg fram að móti," segir Aron Már Smárason, sem hannaði leikinn ásamt Fannari Berg Gunnólfssyni.

Hann fer þannig fram að þú velur fimmtán manna lið á síðunni Fantasydeildin.net fyrir 100 milljónir úr Pepsi-deild karla í fótbolta. Leikmenn fá ákveðinn fjölda stiga eftir því hvernig þeir standa sig. Virði leikmanna fer eftir frammistöðu þeirra á síðustu leiktíð og er Garðar Jóhannsson, framherji Stjörnunnar, dýrasti sóknarmaðurinn. Liðsfélagi hans, Halldór Orri Björnsson, er dýrasti miðjumaðurinn.

Fantasy-deildin er byggð á ensku Fantasy-deildinni sem hefur notið mikilla vinsælda hér á landi þar sem íslenskir fótboltaáhugamenn stjórna um tólf þúsund liðum.

Aron Már og Fannar Berg vonast til að íslensku liðin í deildinni þeirra verði um átta þúsund. Íslensk draumadeild hefur ekki náð að festa sig í sessi hérlendis en þeir vonast til að leikurinn þeirra sé kominn til að vera. „Það er líka skemmtilegt að vera með svona leik með deildinni. Þú fylgist meira með," segir Aron Már.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×