Skoðun

Laun bæjarstjóra hækkuðu um 3,5%

Ármann Kr. Ólafsson skrifar
Í umræðunni um þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogs að afnema rúmlega þriggja ára frystingu launa allra bæjarfulltrúa og tengja þau aftur við þingfararkaup, sem samþykkt var af fulltrúum allra flokka, hefur því verið haldið á lofti að heildarlaun bæjarstjóra Kópavogs hafi um leið verið hækkuð um 23%. Þetta er fjarri sanni.

Hið rétta er að grunnlaun bæjarstjóra Kópavogs hækkuðu um 3,5% þann 1. mars sl., samkvæmt ákvörðun kjararáðs, eins og laun allra þeirra sem undir kjararáð heyra svo sem laun þingmanna, ráðherra og embættismanna.

Í janúar 2009 voru laun bæjarfulltrúa lækkuð um 10% en jafnframt voru þau aftengd þingfararkaupi. Með því vildu bæjarfulltrúar taka á sig kjaraskerðingu eins og aðrir í samfélaginu. Síðan þá hafa launin staðið óhreyfð, með tíu prósenta lækkuninni, á meðan aðrir sambærilegir hópar, eins og til dæmis þingmenn, hafa fengið sínar lækkanir til baka og vel það í þremur áföngum, nú síðast 1. mars sl.

Eftir ákvörðun bæjarráðs nú í apríl eru laun bæjarfulltrúa aftur 27% af þingfararkaupi. Það þýðir í krónum talið að laun fyrir setu í bæjarstjórn urðu frá og með 1. mars 164.752 kr. á mánuði en voru 133.928 kr.

Fyrr á þessu ári höfðu gengið til baka launalækkanir stjórnenda bæjarins. Þetta þýðir með öðrum orðum að laun bæjarfulltrúa í Kópavogi voru fyrst til að lækka eftir hrun og síðust til að ganga til baka eftir hrun.

Grunnlaun bæjarstjóra Kópavogs voru 1. júní 1.127.821 kr. ef með er talinn bifreiðastyrkur en þau hækkuðu um 3,5%, eins og áður sagði í mars. Þess má geta að grunnlaun bæjarstjóra Kópavogs voru 1. janúar 2009 1.080.774 kr.

Auk bæjarstjóralauna fær bæjarstjóri Kópavogs, samkvæmt venju, greitt fyrir setu í nefndum og ráðum, og núna fyrir bæjarráð, bæjarstjórn og hafnarstjórn. Eru heildarlaunin þegar það er talið með því 1.496.988 krónur. Samtals hafa því heildarlaunin hækkað um 4,4 % á u.þ.b. þremur árum eða frá 1. janúar 2009.




Skoðun

Sjá meira


×