Skoðun

Veiðigjaldið kom fyrir löngu

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Veiðigjald er komið á fyrir löngu í sjávarútveginum. Það gerðu útvegsmenn sjálfir. Viðskipti með veiðiheimildir eru umfangsmiklar og verðið afar hátt. Veltan nemur tugum milljarða króna á hverju ári. Tekjurnar renna nær eingöngu til handhafa veiðiheimildanna.

Stjórnarflokkarnir hyggjast auka hlut ríkissjóðs úr 9,46 kr. fyrir kíló af þorski í 37 kr. fyrir veiðileyfið og hækka það svo í 54 kr. eftir þrjú ár. Útgerðarfyrirtækin sjálf krefjast um 300 kr. í endurgjald fyrir réttinn. Það er áttfalt veiðigjald. Hlutur þeirra í tekjunum er 97% og lækkar í 82% með áformum stjórnvalda. Hlutur ríkisins verður ekki talinn mikill.

Á síðasta fiskveiðiári voru 44% aflamarksins flutt á milli skipa. Viðskipti milli óskyldra aðila námu 76 þúsundum tonna. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands birti í maí 2010 skýrslu um markaðinn með veiðiheimildir. Telur stofnunin að hann sé skilvirkur og verðlagið endurspegli fjárhagslega getu fyrirtækjanna til þess að greiða fyrir veiðiréttinn. Bent er á að kvótalitlar og kvótalausar útgerðir séu stórtækar á markaðnum fyrir leigukvóta. Hlutur þeirra var fiskveiðiárið 2008/9 um 35% af öllum leigukvóta í þorski og ýsu það ár. Nýlegri upplýsingar eru ekki handbærar, en miðað við þetta hlutfall leigðu kvótalitlar eða kvótalausar útgerðir til sín og veiddu um 15.000 tonn af þorski og 10.000 tonn af ýsu á síðasta fiskveiðiári. Þær greiddu í veiðigjald 60-80% af verðinu, sem fæst fyrir fiskinn á fiskmarkaði. Stóru útgerðirnar, Samherji, HB Grandi og Brim, leggja á allt að 80% veiðigjald í krafti úrelts úthlutunarkerfis og kvótamarkaðar, sem LÍÚ rekur.

Þótt ríkið auki hlut sinn í veiðigjaldinu hækkar kvótaverðið ekki. Leigjendur verða jafnsettir. Hagnaður af framsalinu verður eftir sem áður mjög mikill eða þrefalt meiri en af veiðum. Þeir, sem eftir hækkun veiðigjaldsins kaupa veiðirétt til langs tíma, aflahlutdeild, verða líka jafnsettir. Verði tekið tillit til fjárskuldbindinga vegna keyptra aflahlutdeilda raskar hækkun veiðigjaldsins ekki forsendum kaupanna. Það er löngu tímabært að framsal veiðiheimilda verði fremur tekjustofn hins opinbera en fáeinna útgerðarmanna.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×