Erlent

Evrópa skal bregðast við vegna PIP-málsins

Evrópsku neytendasamtökin vilja láta herða eftirlit með öllum læknavörum, eins og brjóstapúðum og gangráðum.
Evrópsku neytendasamtökin vilja láta herða eftirlit með öllum læknavörum, eins og brjóstapúðum og gangráðum.

Nauðsynlegt er að innleiða kerfi í Evrópu sem miðar að því að lækningatæki eins og gangráður, brjóstapúðar og mjaðmarliðir fái ekki markaðsleyfi nema þau verði rannsökuð mjög ítarlega, rétt eins og lyf. Þetta er mat Evrópsku neytendasamtakanna, sem hvetja Evrópuþingið til að láta innleiða slíkt kerfi í ljósi PIP-málsins.



Evrópuþingið ályktaði í síðustu viku að brýnt sé að koma á skráningarkerfi yfir þær konur sem fá brjóstapúða, strangari öryggiskröfur og betri rekjanleika vörunnar til að koma í veg fyrir að mál eins og PIP-hneykslið endurtaki sig.



Neytendasamtökin greina frá því að Monique Goyens, formaður Evrópsku neytendasamtakanna, telji að heilbrigðisyfirvöldum um alla Evrópu hafi mistekist að veita samræmdar upplýsingar um það hvernig ætti að bregðast við ónýtum PIP-brjóstapúðum. Sum ríkin ráðlögðu eftirlit en önnur töldu vænlegast að fjarlægja púðana.Slíkt hafi skapað óvissu og áhyggjur hjá þúsundum kvenna.



Fram kom á þinginu að um 400 þúsund konur um allan heim hafa fengið PIP-púða í brjóst sín, þar af eru um 100 þúsund í Evrópu. Þá segir þingið að PIP-málið sýni þörfina á lögum um hópmálsókn sem geri neytendum auðveldara að leita réttar síns.

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×