Skoðun

Fjölföldun er ekki í boði

Kristín Linda Jónsdóttir skrifar
Í upphafi nýrrar árstíðar, eins og nú þegar haustönn er að ganga í garð, óska ég þess ætíð að ég gæti fjölfaldað sjálfa mig. Vegna þess að það er svo ótrúlega margt skemmtilegt, spennandi og uppbyggjandi í boði, lítið bara yfir síður dagblaðanna. Ótal viðburðir, námskeið og tilboð um þátttöku í öllu sem nöfnum tjáir að nefna, auðvitað er þetta framboð bara dásemdin ein í sjálfu sér og vitnar um kraft og líf samfélagsins okkar.

Staðreyndin er hins vegar sú að ÖLL höfum við sömu 24 klukkustundirnar í sólarhringnum, þar ríkir algjört jafnrétti, enginn fær fleiri klukkustundir en annar, ekki ég heldur. Það er því í raun kjánalegt og sjálfmiðað að kvarta yfir tímaleysi því að við höfum öll sama tímann á meðan við lifum hér á þessari jörð.

Tímaskortur verður til vegna þess að við yfirhlöðum lífsvagninn okkar, viljum engu sleppa, höfum ekki bein í nefinu til að segja nei, hvorki við okkur sjálf né aðra og ekkert svigrúm fyrir það óvænta og ófyrirsjáanlega í lífsdansinum. Nöldur um tímaskort vitnar því aðeins um að við sjálf höfum ekki nógu gott tak á okkar eigin hugsun og hegðun og náum ekki að skipuleggja okkur á raunhæfan og skynsamlegan hátt heldur höldum áfram að bæta í tímapottinn þótt þegar flæði upp úr.

Þess vegna verðum við, ég og þú, að velja markvisst og meðvitað hvernig við ætlum að njóta tímans komandi vikur og mánuði. Í atinu á markaðstorgi nútímans eru gylliboðin ótalmörg og við þurfum að gæta þess að áreiti umhverfisins teymi ekki hugann í aðrar áttir en okkar eigin. Það eru okkar draumar, ekki annarra, sem við ætlum að upplifa. Svo þurfum við líka að passa að eftir verði á hverjum degi tóm í dagskránni til þess bara að vera til, rými til að skapa sjálfum sér og sínum óvæntar og viðeigandi sælustundir í takt við daginn, bara þegar að honum kemur. Múlbinding og vanafesta er vísasti vegurinn til leiða, þreytu og dofa. Gefum okkur opið svæði í eigin dagbók til að njóta þess að stökkva á það nýja sem heillar í núinu, þá, þegar þar að kemur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×