Skoðun

Ég á þetta ég má þetta

Bergur Hauksson skrifar
Að minnsta kosti þrír ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa orðið uppvísir að lagabrotum samkvæmt annaðhvort niðurstöðu dómstóla eða úrskurðarnefndar. Viðbrögð ráðherranna hafa verið áhugaverð. Einn sagði, þegar niðurstaða dóms var á þá leið að hann hefði brotið lög, að það skipti ekki máli, ráðherrann væri í pólitík og gerði það sem pólitísk sannfæring krefðist. Annar sagðist fara eftir sannfæringu sinni og sá þriðji nefndi að líklega þyrfti að breyta lögunum.

Fyrir bankahrun gerðust undarlegir atburðir. Bankar lánuðu tugi eða hundruð milljarða án trygginga. Bankar lánuðu stjórnendum hundruð milljóna eða milljarða til kaupa á hlutabréfum með einungis veð í hlutabréfunum. Margt af þessu mjög skrýtið og líklega er eitthvað af þessu ólöglegt eins og aðgerðir stjórnmálamannanna.

Einhverjir af þeim sem tóku þátt í þessum bankaleik eru enn starfandi hjá bönkunum eða í umboði þeirra. Þetta hafa stjórnmálamenn fordæmt og talið að ekkert af þessu fólki ætti að vinna hjá eða fyrir bankana.

Sömu stjórnmálamenn styðja áfram félaga sína, sem hafa brotið lög, til að starfa fyrir Íslands hönd.

Verður ekki að telja að bankamennirnir hafi haft sannfæringu fyrir því að þeir væru að gera það sem best væri fyrir félagið sem þeir unnu hjá? Verður ekki að telja að þeir hafi verið að vinna eftir sinni sannfæringu? Ef þeir hefðu vitað að þeir væru að brjóta lög er þá ekki líklegt að þeir hafi viljað að lögunum yrði breytt?

Bæði bankamenn eða útrásarvíkingar og stjórnmálamenn voru að vinna eftir sannfæringu sinni að því er telja verður. Er einhver munur á siðferðisstuðli stjórnmálamanna og útrásarvíkinga?

Enn einn stjórnmálamaður til telur það ekki tiltökumál þó lán sem hann tók falli á ættingja hans. Lán sem svokallaðir útrásarvíkingar tóku féllu á óskylda aðila. Hvort er siðferði stjórnmálamannsins eða útrásarvíkinganna betra? Eru kannski bæði stjórnmálamenn og útrásarvíkingar með íslenskt siðferði?




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×